Saturday, May 28, 2011

Music is what feelings sounds like...

Ég get ekki ímyndað mér lífið án tónlistar. Fallegir (nú eða hraðir, taktfastir og hressir) tónar geta gefið manni svo mikið. Til að mynda getur eitt gott lag gjörsamlega umturnað hundleiðinlegum degi í einn af þeim bestu og því er ekki vitlaust að hafa 'feel good' playlista við höndina þegar allt virðist ganga á afturfótunum og erfitt er að sjá ljósið. Viss lög getur maður alltaf treyst á, þau sem maður tengir við viss andartök eða minningar. Lög sem einfaldlega  og undantekningarlaust draga fram bros á vör.

Tónlist sem hljómar í gegnum tölvu, iPod eða útvarp er eitt, en oft er það allt annað að hlusta á tónana 'live'. Að fara á tónleika er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri og hef ég reynt að vera á vaktinni hér í Kaupmannahöfn þar sem mörg bönd og þekktir listamenn leggja leið sína hingað allan ársins hring. Það tekur mig einungis 3 sek að kíkja inn á Billetlugen eða Billetnet, 5 mínútur að hjóla niður á Vega þar sem margir góðir tónleikar (fyrir gott verð) eiga sér stað og svo er ekki nema 10 mínútur í Tívolí þar sem Fredagsrock er í hávegum haft á sumrin. Gott fyrir 'last minute' ákvarðanir...

Fyrir utan að sjá listamanninn/mennina í eigin persónu finnst mér stór plús að uppgötva hversu miklir 'talentar' þeir eru í alvöru (skín yfirleitt í gegn frá fyrsta lagi). Það eru nefnilega svo margir, ólíkt til að mynda Britney Spears, sem syngja gallalaust á sviði og án þess að vera mixaðir í bak og fyrir. Annað sem gefur auka stig er að sjá hversu vel þeir njóta sín á meðan þeir skemmta sér og öðrum. Slík sviðsframkoma rennir stoðum undir þá staðreynd að það hlýtur að vera yndisleg tilfinning að vinna við það sem manni finnst skemmtilegast að gera.

Ennfremur, þegar svo er, gefur það áhorfendum svo miklu meira en ella og maður gjörsamlega brosir í hringi að tónleikum loknum...


No comments:

Post a Comment